Contents: Afkastamikill mannvinur. Starfssaga séra Sigurbjörns Á. Gíslasonar. Jón Kr. Ísfeld tók saman og skrásetti. Sigurbjörn fæddist í Glæsibæ í Sæmundarhlíð 1.1. 1876, sonur Gísla Sigurðssonar, bónda þar og í Neðra-Ási í Hjaltadal, og Kristínar Björnsdóttur húsfreyju.
Eiginkona Sigurbjörns var Guðrún, alþm. og rithöfundur, dóttir Lárusar H. Halldórssonar, prófasts, alþm. og fríkirkjuprests í Reykjavík, og k.h., Kristínar Katrínar Pétursdóttur Guðjohnsen húsfreyju.
Sigurbjörn og Guðrún bjuggu að Ási við Ásvallagötu í Reykjavík en Guðrún fórst af slysförum, ásamt tveimur dætrum þeirra hjóna er bifreið rann út í Tungufljót 1938.
Meðal barna Sigurbjörn og Guðrúnar voru Lárus, borgarminjavörður og öðrum fremur stofnandi Árbæjarsafnsins; Gísli, forstjóri Elli- og hjúkrunarheimilisins Grundar, og Friðrik, stórkaupmaður í Reykjavík.
Sigurbjörn lauk stúdentsprófum frá Lærða skólanum í Reykjavík 1897, embættisprófi í guðfræði frá Prestaskólanum árið 1900 og fór víða um heim til að kynna sér trúmála- og líknarstörf. Hann starfaði að kristindómsmálum alla tíð, sinnti barnaguðþjónustum guðfræðinema 1897-1900 og síðar sunnudagaskólastarfi í Reykjavík í fjóra áratugi. Hann ferðaðist um landið í 30 sumur til að vekja áhuga á kristilegu sjálfboðastarfi, kenndi við Kvennaskólann, Barnaskóla Reykjavíkur, Æskulýðsskólann, Kennaraskóla Íslands, Verslunarskóla Íslands og Vélstjóraskóla Íslands. Hann stofnaði, ásamt Gísla, syni sínum, Elli- og hjúkrunarheimilið Grund og var heimilisprestur þar frá 1942 og til æviloka.
Sigurbjörn var ritstjóri kristilegra tímarita og sinnti ótal trúnaðarstörfum fyrir bindindishreyfinguna, kristniboð og á sviði líknarmála. Hann var formaður sóknarnefndar Dómkirkjunnar í 30 ár, sat í framkvæmdanefnd Stórstúku Íslands, var stjórnarformaður Sambands íslenskra kristniboðsfélaga og formaður Barnaverndarráðs. Hann hlaut margvíslega viðurkenningu frá íslenskum og erlendum félagasamtökum.
|