Innihald Þorvaldur Thoroddsen, minningabók.
Minnigabók Þorvaldar Thoroddsen urðu aldrei nema tvö bindi. Æskuár - Kennslustörf og rannsóknir á Íslandi 1880-1898.
Fyrstu skemtiferðina fór eg upp í Borgarfjörð 1871, þá bjó Páll Blöndal á Hvítárvöllum.
Eg varð honum samferða úr Reykjavík um kvöldið 1. júlí kl. 11, og lentum
við í stórum skólapiltahóp, sem var á heimleið. Var mjög svakksamt á ferðinni, eins
og þá var títt, og gekk ferðalagið skrykkjótt, bæði af því að sumir voru svínkaðir, er
þeir fóru á stað, og flestir þurftu að staupa sig á leiðinni. Einn varð að skilja eftir í
Reiðskarði hjá Ártúni, hann komst ei lengra, og með honum annan mann sem færari
var. Nokkuð var áð og sofið við Svínaskarð, og þar týndust allir hestarnir, en fundust
þó fljótt aftur uppi á skarði. Á Möðruvöllum var aftur áð, etið skyr og drukkið fast,
enda var pytlan sífelt á lofti, meðan eitthvað var til. Síðan riðum við sem leið liggur
kringum Hvalfjörð, fengum enga fjöru*), en húðarigningu í klungrunum og klifunum
fyrir Þyril, og urðum holdvotir, því verjur voru engar að gagni, reiðskapur var mjög í
ólagi hjá mörgum, gjarðir og ólar alltaf að slitna og hestarnir mjög misjafnir. Eg
bragðaði þá aldrei vínföng, aldrei meðan eg var í skóla, og tók ekki þátt í víngleði
hinna, var votur og mjög syfjaður, og átti illt með að hanga á hestinum, dottandi við
og við. Að þessu svalki vorum við allan daginn 2. júlí og til kl. 2 næstu nótt, þá
komumst við loks að Hvítárvöllum, höfðum skilið við hina á Hesthásli.
|