Innihald Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka. Samið hefir Guðni Jónsson.
Guðni Jónsson fæddist á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, sonur fátækra hjóna sem áttu 17 börn alls. Hann ólst upp í Leirubakka á Landi til tólf ára aldurs, fór þá að vinna og reri seinna tvær vertíðir en tókst svo að brjótast til mennta, gekk í kvöldskóla í Reykjavík, lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg 1921 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1924. Hann stundaði síðan háskólanám, fyrst í guðfræði en hóf síðan nám við norrænudeild Háskólans og kenndi með námi. Hann varð magister í íslenskum fræðum 1930 og fjallaði meistaraprófsritgerð hans um Landnámu, samanburð Landnámuhandrita innbyrðis og við aðrar heimildir.
Guðni kenndi við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1928-1945 en varð þá skólastjóri sama skóla. Hann var mikilvirkur fræðimaður, einkum á sviði ættfræði og sagnfræði, og skrifaði fjölda rita, þar á meðal doktorsritgerð sína, Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi, sem út kom 1952 og hann varði svo ári síðar. Einnig samdi hann ritin Bergsætt, Sögu Hraunshverfis á Eyrarbakka, Stokkseyringa sögu og fleiri rit. Hann annaðist einnig útgáfur fjölda fornrita, meðal annars Íslendingasagna I-XII, sem út komu 1946-1947, Fornaldarsagna Norðurlanda og margra annarra rita. Einnig annaðist hann útgáfu á ritum Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi og fleiri alþýðufræðimanna og gaf út Íslenska sagnaþætti og þjóðsögur I-XII.
|