Contents: Mannlíf við Sund. Býlið, byggðin og borgin. Þorgrímur Gestsson tók saman.
Hófatak á mjúkri grund rauf þá kyrrð sem ríkt hafði frá öndverðu. Flokkur manna kom ríðandi austan að og stansaði á holtinu þar sem hæst bar. Mófuglar flögruðu upp en spöktust fljótt og settust aftur, óvanir mannaferðum. Fremst í flokknum riðu karl og kona, skartlega búin. Þau stigu af baki og horfðu yfir hrísi- og kjarrivaxna ásana og mýrarnar á nesinu sem teygði sig fyrir fótum þeirra vestur í flóann, í átt til hnígandi sólar, yfir eyjarnar á sundunum og til fjallanna sem blánuðu í norðri.
Þannig getum við reynt að sjá fyrir okkur hina fyrstu Reykvíkinga koma ofan um heiði, til nýrra heimkynna sinna sumarið 877 og stansa þar sem nú heitir Ártúnsholt: Ingólf Arnarson, Hallveigu Fróðadóttur, Helgu Arnardóttur, ekkju Hjörleifs fóstbróður hans, og fylgdarlið þeirra. Í kyrru veðri hafa þau séð gufumökk stíga frá miklum laugum í einni mýranna á nesinu norðanverðu, vestan undir lágum ási, og volgum læk sem hlykkjaðist um mýrina til sjávar. Allar götur síðan var þetta land kennt við laugarnar; mýrin lengst af nefnd Laugamýri, nú Laugardalur, holtið austan við hana Laugaholt, síðar Laugarás, og lækurinn Laugalækur. Á tanganum austan við víkina þar sem Ingólfur reisti bæ sinn, Laugarnestanga, var þegar á landnámstíð byggt býli sem einnig var kennt við laugarnar og nefnt Laugarnes.
|