Contents: Þá, nú og svo framvegis. Ljóð eftir Þorstein Antonsson.
Von
Það lifir ljós við stall hins fallna manns,
og enginn nema hafið getur slökkt þetta ljós,
og ekkert nema ástin getur glætt þetta ljós.
Það er stjörnusmá týra við kolmyrkvað haf
milli lifenda og dauðra,
sem heldur óslitnum böndum milli fingra og ljóss
hins rísandi dags,
sem heldur lífi í rótum, sem kærleikur sprettur af,
þótt enginn guð sé lengur til að taka á móti honum.
Það er ljós í glugga konu, sem á son bak við stormtrylltar öldur.
Þótt Sigga og Gunna og Svenka
gangi til verka skyggðar líkblæju vonleysis,
þá situr hún bak við ljósið,
þessi kona, og horfir út á hafið.
|