Innihald Glampar. Ljóð eftir G.Ó. Fells.
Harpan.
Skáldið:
Eg krýp þér, harpa, horfi' á þína strengi,
horfi' í auðmýkt, bæði fast og lengi.
Þar tónar blunda. Bíddu hæg, mín þrá!
Bragi — má eg vekja þá?
Bragi:
Þér er harpan heimil; láttu strengi
hennar óma, bæði skært og lengi.
En tónar hennar eru brekabörn,
blóðheit, — nokkuð ærslagjörn!
Mundu því, að þér er best að láta
þá ei svigrúm hafa fram úr máta.
Mundu það, þeir eru brekabörn,
blóðheit, nokkuð ærslagjörn!
|