Innihald Síðan þessi kona varð trúuð hefur hún verið til vandræða í húsinu. Skáldsaga eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttir. Gott eintak, áritað.
Hún kom aftur á mánudegi og þreytt augun ljómuðu. Lakk er undursamlegt efni, einsog það sé lifandi, sagði hún, þú ættir að sjá hvað stiginn glansar. Get ég fengið að sjá svörtu málninguna aftur. Ég opnaði dós fyrir hana og fór að sinna öðru og var vafalaust uppundir klukkustund að afgreiða viðskiptavin sem þurfti timbur í verönd og þegar ég kom aftur var konan enn að horfa ofan í dósina.
Fyrirgefðu, sagði hún, en þetta er svo seiðandi. Ég er farin að skilja myrkrið.
Ég var að afgreiða mann með verönd, sagði ég til að fullvissa hana um að þetta væri í allra besta lagi en fannst ég svo óþarfa kumpánlegur og sá eftir þessu.
Verönd, endurtók hún, og svipurinn varð dreymandi. Þegar ég er búin að fullgera húsið að innan einsog það á að vera, smíða ég verönd, eða veistu tilhvers mig langar mest af öllu, spurði hún og næstum dró mig út á planið fyrir utan verslunina. Sjáðu þakgluggann minn, mig langar að láta smíða svalir á þessari hlið, ég veit að þetta er norðuhliðin en sólin sest á bak við fjallgarðinn og flóinn litast rauður, það er dásamlegt, eldhúsið er stundum einsog diskótek á vorin, en þarna á svölunum gæti ég setið og horft á sólarlagið. Og á veturna horfi ég á stjörnurnar, Karlsvagninn sést framyfir miðnætti og allar hinar stjörnurnar, hugsaðu þér, ég get horft upp í himinninn, ég klæði mig bara í ullarsokka. Ég geng alltaf í hvítum ullarsokkum, bætti hún við eftir stutta þögn. Hvernig litis þér á það?
Tja, sagði ég og fannst ekki mega hrófla við þakglugganum, það yrðu nú framkvæmdir, sagði ég og sá hana í huganum fyrir mér á svölunum. Hún var í hvítum ullarsokkum sem náðu upp á mið læri og víðri hvítri lopapeysu með kakóbolla í höndunum og þeyttur rjómi lak af vörum hennar. Hún var nývöknuð og útsofin.
|