Innihald Andalúsíuljóð arabískra skálda. Daníel Á. Daníelsson þýddi. Á frummálinu nefnist bókin Cola Franzen, Poems of Arab Andalusia. Arabísk skáld og skáld af gyðinglegum uppruna ortu skálda best í Andalúsíu á Spáni á tíundu, elleftu og tólftu öld. Menning araba setti sinn svip á Spán og hann hefur ekki enn verið alveg þurrkaður út.
Spænsk skáld sem kennd voru við kynslóðina frá 1927 urðu fyrir áhrifum frá þessum ljóðum, má nefna þá Federico García Lorca og Rafael Alberti í þeim hópi. García Lorca orti heila ljóðabók undir merkjum arabísks skáldskapar, El Diván del Tamarit, og eru þessi ljóð með þeim síðustu sem eftir hann liggja. Einfaldleiki þessara ljóða, ástríða þeirra og form orkuðu á spænsk skáld og reyndar ekki bara þau. Arabísk áhrif fóru víða um heiminn. Skáldin arabísku voru flest tigin, jafnvel vesírar, prinsar og konungar. Þeir ortu um konur, ástir og vín, vináttu, hesta, riddara og bardaga og lofsungu náttúru Andalúsíu þar sem helstu dvalarstaðir þeirra voru Sevilla, Kordova og Granada. Með skáldskap sínum urðu þeir fyrirmyndir trúbadorasöngva og annars ljóðræns skáldskapar Suðurlanda.
|