Contents: Upp við fossa. Saga eftir Þorgils gjallanda.
Þetta er fyrsta útgáfa þessarar forboðnu bókar.
Þeim hafði orðið orðfall um stund; náttúran hafði heillað þau; laðað þau til að samþýðast sér; hverfa í eina heild; tengja saman mannlíf, jarðlíf, vatn og loft; renna í heilagt samband; algleymi og alsælu. Þau gengu hvort við hliðina á öðru, fast saman, heyrðu og fundu æðasláttinn tíðan og titrandi; fundu ekki einungis sitt eigið hjarta slá þungt og erfitt, heldur og hvort annars hjarta stynja undir ofurmegninu.
"Er þér kalt... er þér kalt, Gróa?"
"Nei - mér er heitt -- of heitt."
Bæði stóðu kyrr og litust í augu; svo hnigu þau saman; brjóst að brjósti; vöfðu hvort annað örmum, varirnar mættust í brennandi kossi - eitt andartak, tvö eða þrjú, ef til vill lengur, því andartakið var svo stutt, munaðurinn svo þrunginn og ákafur. Þá slepptu þau faðmlögunum, stóðu hvort hjá öðru en nú litu bæði niður. Máninn stóð þegjandi og fölur, áin gjálfraði, hamrarnir héngu, fannirnar glóuðu, og geislastafurinn logaði á vatninu. Náttúran var ekkert umbreytt, aðeins fannst þeim fossinn syngja hærra og skærar en áður.
"Drottinn minn -- hvað höfum við gert?" Það var Gróa, sem fyrst náði að tala.
"Hvað höfum við gert? --- Ó, mér er ómögulegt að segja, hvað ég elska þig."
"Geirmundur, ég elska þig líka; elska þig, eins og væri um tvítugt, -- Ó, ég hef aldrei elskað fyrri..."
|