Innihald Vörður við veginn. Ingólfur Gíslason, læknir rekur ævi sína. Ingólfur Gíslason var bláfátækur bóndasonur, fæddur 1874 og uppalinn að Þverá í Fnjóskadal. Hann lýsir skemmtilega í minningabók sinni, Læknisævi, æskuárunum, námi í Menntaskólanum í Reykjavík og síðan Læknaskólanum og kennurum þar, Guðmundunum þremur. Eftir útskift í febrúar 1901 vann hann um vorið á sjúkrahúsum í Kaupmannahöfn og var skipaður héraðslæknir í Reykjadal í Þingeyjarsýslu í ágúst sama ár. Ekki leið á löngu þar til hann 2. ágúst fékk að reyna á eigin skinni hættuna af því að veikjast af botnlangabólgu úti á landsbyggðinni: „Ég varð sjálfur eitt af fyrstu og erfiðustu viðfangsefnunum í þeirri grein norðanlands,“ segir hann. Eftir fjögurra daga kölduköst, lítt þolandi kvalir og nokkuð háan hita var lagt af stað með hann í kistu á kviktrjám: „Settir voru plankar á hlið tveggja, stilltra hesta og kista með sjúklingnum sett þversum á trén. Tveir hraustir menn gengu og studdu kistuendana og þriðji maður reið eða gekk á undan og teymdi. Ég lá í kistunni, hreyfingin var ónotaleg og þrautin óx, en til allrar hamingju held ég, að ég hafi verið hálf meðvitundarlaus með köflum.“ Fyrra daginn var farið yfir Reykjaheiði og gist um nóttina að Hálsi í Fnjóskadal, og seinni daginn „ferjað yfir Fnjóská, sem þá var óbrúuð, og svo haldið eftir bröttum, ósléttum, krókóttum vegi yfir Vaðlaheiðina niður að sjó hjá Veigastöðum, ferjað yfir Eyjafjörð og kistan loks borin af bryggjunni á sjúkrahúsið. Mun það ferðalag hafa minnt á líkfylgd, því góðgjarnir og hjálpsamir menn komu þarna til aðstoðar, hjálpuðu til að bera, en aðrir fylgdust með eins og gengur.“ Guðmundur Hannesson og Steingrímur Matthíasson nýútskrifaður skáru hann svo upp og Matthías Einarsson nemandi svæfði. Nú tóku við blóðuppköst, hita- og svitaköst og loks var hann borinn út af sjúkrahúsinu 9. desember og vóg þá 40 kg. Þetta mun hafa verið fyrsti botnlangaskurðurinn á Íslandi.
|